Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, hefur lofað auknum hagvexti, uppbyggingu og fjárfestingu í landinu í kjölfar sigurs síns í forsetakosningunum á sunnudag. Ekki liggur þó fyrir hvernig hann ætlar að ná þeim árangri þrátt fyrir gífurleg völd samkvæmt nýrri stjórnarskrá.
Erdogan, sem hefur ráðið ríkjum í Tyrklandi frá 2003, fékk ríflega helming greiddra atkvæða í kosningunum á sunnudag. Helsti keppinautur hans, Muharrem Ince, fékk rúm 30 prósent. Stjórnarandstaðan hefur sakað stjórnvöld um kosningasvindl.
Breytingar á stjórnarskrá landsins voru samþykktar naumlega í þjóðaratkvæðagreiðslu í fyrra. Kosningin fór fram í skjóli neyðarástands sem hefur verið við lýði í landinu frá byltingartilraun sem var gerð þar í júlí 2016.
Breytingarnar hafa meðal annars í för með sér að embætti forsætisráðherra var lagt niður og er forseti nú einvaldur þegar kemur að vali á ráðherrum og öðrum háttsettum embættismönnum stjórnkerfisins. Forsetinn hefur einnig vald til að grípa inn í mál sem eru til meðferðar í dómskerfinu og lýsa einhliða yfir neyðarástandi.
Frá því að Erdogan tók við völdum hefur hagkerfi Tyrklands vaxið nokkuð en hægt hefur á vextinum undanfarna mánuði. Verðbólga hefur aukist og gengi tyrknesku lírunnar fallið hratt. Forsetinn lofaði því meðal annars í kosningabaráttu sinni að grípa meira inn í peningastefnu landsins og draga úr sjálfstæði seðlabankans.
Andstæðingar forsetans óttast að senn fari í hönd tími einræðis og gerræðis en mannréttindi íbúa landsins hafa löngum verið fótum troðin og mikil spilling ríkt í landinu.
Lofar bót en andstaðan óttast einræði

Tengdar fréttir

Segir persónu Erdogans hafa runnið inn í ríkið
Stjórnarandstæðingar og ÖSE segja ekki hafa verið gætt jafnræðis í tyrknesku forsetakosningunum.

Erdogan lýsir yfir sigri
Enn er mikið ólguástand í Tyrklandi eftir misheppnaða valdaránstilraun gegn Erdogan árið 2016.