Hin tveggja ára gamla Farah er í hópi ótal dýra sem neydd hafa verið til þess að spá fyrir um úrslit knattspyrnuleikja á síðustu dögum. Í nýjasta spádómi hennar, sem sjá má hér að neðan, er henni gert að gera upp á milli íslenska landsliðsliðsins og þess króatíska - sem takast munu á í Rostov á morgun.
Fálkinn er ekki í neinum vafa um hver mun bera sigur úr býtum. Eins og sjá má flýgur hún beint að kassanum sem merktur er með króatíska fánanum.
Rétt er þó að minna á að úrslit leikjanna á HM hafa hingað til ekki ráðist í eyðimörkinni, hvað sem spádómum fugla líður. Farah virðist þar að auki vera einstaklega lélegur spáfugl, en hún hélt því fram að Argentína myndi sigra Íslendinga og að íslenska liðið myndi svo leggja það nígeríska.
Hvorugur spádómanna reyndist réttur. Það er því kannski góðs viti að Farah geri ráð fyrir króatískum sigri.