Monaco, Le Mans og Indianapolis 500 eru þrír stærstu kappakstrar heims. Eftir sigurinn í Frakklandi fyrr í þessum mánuði skortir Alonso nú aðeins sigur í Indy 500 til þess að fullkomna safnið. Graham Hill heitinn er eini ökuþórinn sem hefur unnið alla kappakstrana þrjá.
Alonso tók sér hlé frá Monaco-kappakstrinum í fyrra og reyndi fyrir sér í kappakstrinum sögufræga í Indianapolis. Hann var á meðal efstu manna allt þar til Honda-vélin í bíl hans gaf sig seint í keppninni.
„Ég geri upp hug minn eftir sumarið um hvað ég ætla að gera á næsta ári, en eftir sigur á Le Mans kemur Indy inn í myndina sem stórt forgangsmál. Sjáum til hvort það verði á næsta ári eða þarnæsta. Sjáum til hver framtíð Formúlu 1 verður,“ sagði Alonso eftir sigurinn á Le Mans.
Alonso er orðinn 37 ára gamall en honum hefur orðið lítt áleiðis með McLaren-liðinu í Formúlu 1 síðustu árin. Á blaðamannafundi fyrir franska kappaksturinn um helgina útilokaði Alonso ekki að söðla um og skipta alfarið yfir í Indycar-mótaröðina vestanhafs á næsta ári.