Donald Trump Bandaríkjaforseti endurnýjaði refsiaðgerðir sem verið hafa í gildi gegn Norður-Kóreu með vísan til þess að enn stafi „gríðarleg ógn“ af kjarnavopnum stjórnvalda í Pjongjang í gær. Aðeins tíu dagar eru liðnir frá því að Trump sagði að engin ógn væri lengur af Norður-Kóreu eftir fund hans með Kim Jong-un einræðisherra landsins.
Bandarísk stjórnvöld hafa þegar gripið til aðgerða til að þóknast stjórnvöldum í Norður-Kóreu eftir leiðtogafundinn. Þannig hafa þau fellt niður sameiginlegar heræfingar með Suður-Kóreu sem hafa lengi verið þyrnir í augum norðanmanna.
Trump stærði sig mjög af einstöku sambandi sínu við Kim og að hann hefði fengið einræðisherrann til þess að fallast á algera afkjarnavopnun. Eftir fund þeirra Kim í Singapúr gekk Trump svo langt að lýsa því yfir á Twitter að „engin kjarnorkuhætta“ stafaði lengur af Norður-Kóreu.
Í yfirlýsingu sem hann sendi Bandaríkjaþingi í gær vegna endurnýjunar viðskiptaþvingana kvað hins vegar við allt annar tónn, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
Í henni var vísað til ógnar af tilvist og dreifingu kjarnavopna á Kóreuskaga og aðgerða og stefnu stjórnvalda í Norður-Kóreu. Allt þetta ógni áfram þjóðaröryggi, utanríkisstefnu og hagkerfi Bandaríkjanna.
Chuck Schumer, leiðtogi demókrata í öldungadeild Bandaríkjaþings, segir yfirlýsingu Trump nú grafa undan öllu því sem hann áður sagði.
„Við verðum að nálgast þessar viðræður af miklu meiri alvöru en bara sem myndatækifæri. Það að segja að búið sé að leysa Norður-Kóreu-vandamálið gerir það ekki að veruleika,“ segir Schumer.
