Zlatko Dalic, landsliðsþjálfari Króatíu, hyggst gera miklar breytingar á byrjunarliði sínu fyrir lokaumferðina í D-riðli þar sem Króatar mæta Íslandi.
Króatar tryggðu sig áfram í 16-liða úrslit með öruggum 3-0 sigri á Argentínu í gær og gaf Dalic um leið út að lykilmenn yrðu hvíldir í leiknum gegn Íslandi.
Sjá einnig: Hvað þýðir stórsigur Króatíu fyrir strákana okkar?
„Ég ætla að gera nokkrar breytingar á liðinu mínu fyrir leikinn í Rostov. Einhverjir leikmenn verða hvíldir,“ sagði sigurreifur Dalic við blaðamenn í gær.
Ísland mæti Nígeríu í annarri umferð riðilsins í dag í Volgograd. Sigur í leiknum myndi þýða að Íslandi nægði jafntefli í leiknum gegn Króötum til að tryggja sig áfram í 16-liða úrslit.
Vísir er með öflugt teymi í Rússlandi sem verður með ítarlegan fréttaflutning af íslenska liðinu á HM. Fylgist með á samfélagsmiðlum okkar - á Facebook, Twitter og Instagram.

