Steve Holland, aðstoðarþjálfari enska landsliðsins, hefur gefið ensku pressunni eitthvað til að tala um því hann sást halda á blaði á æfingu sem sýnir byrjunarlið Englands í næsta leik á HM.
Holland hélt á blaði sem innihélt uppstillingu en í hverri stöðu voru tvö nöfn, líklega fyrir taktíska æfingu enska landsliðsins í gær.
Af myndinni á að dæma eru líkur á að Marcus Rashford og Harry Kane verði báðir í fremstu víglínu Englands gegn Panama á sunnudag og að Raheem Sterling verði settur á varamannabekkinn.
Dele Alli er meiddur og samkvæmt frétt á vef BBC er líklegt að Ruben Loftus-Cheek komi inn í hans stað. Dele Alli stendur á öðrum stað á blaðinu undir þá leikmenn sem þurfi að skoða sérstaklega fyrir leikinn.

