Ljóst er að kantmaðurinn Jóhann Berg Guðmundsson verður ekki með íslenska landsliðinu sem mætir Nígeríu á HM í Rússlandi á morgun. Jóhann Berg æfði ekki með liðinu á keppnisleikvanginum í Volgograd í morgun heldur mætti í strigaskóm og fylgdist með kollegum sínum í liðinu.
Fjarvera Jóhanns Berg er mikil blóðtaka fyrir íslenska liðið. Hann hefur verið lykilmaður í liðinu undanfarin ár, sérstaklega í sóknarleiknum, en fór meiddur af velli í leiknum gegn Argentínu, meiddur á kálfa.
Heimir Hallgrímsson mun væntanlega greina frá stöðunni á Jóhanni Berg á blaðamannafundi hér í Volgograd klukkan 10:15 að íslenskum tíma. Þá kemur í ljós hvort einhverjar líkur séu á þátttöku hans í síðasta leiknum gegn Króatíu í Rostov við Don 26. júní.
Vísir er með öflugt teymi í Rússlandi sem verður með ítarlegan fréttaflutning af íslenska liðinu á HM. Fylgist með á samfélagsmiðlum okkar - á Facebook, Twitter og Instagram.
Jóhann Berg ekki með gegn Nígeríu
Kolbeinn Tumi Daðason í Volgograd skrifar

Mest lesið
Fleiri fréttir
