Íslenska liðið hafði þó góðan grunn ungra leikmanna sem spilað hafði í úrslitakeppni EM 21 árs landsliða sumarið 2011. Liðinu gekk ekkert sérlega vel í úrslitakeppninni en lagði meðal annars Þjóðverja 4-1 á leið sinni þangað.
„Lars Lagerbäck gaf okkur svo mikið,“ sagði Hannes þegar sænskur blaðamaður spurði þá Alfreð og Hannes út í hversu mjög þeir söknuðu Lars.
„Hann kom inn á góðum tíma, þegar íslenskur fótbolti þurfti mann eins og hann með alþjóðlega reynslu. Við lærðum mikið af honum og hann stóð sig rosalega vel,“ segir Hannes.

Margir höfðu áhyggjur af brotthvarfi hans eftir úrslitakeppni EM. Gæti landsliðið haldið sjó? Eða bætt sig? Myndu strákarnir bregðast eins við skipunum frá Heimi án Lars? Áhyggjurnar virðast hafa verið á sandi reistar.
„Síðan hann fór höfum við stigið skref fram á við,“ segir Hannes. Orð að sönnu. Liðið vann einn sterkasta ef ekki sterkasta riðilinn í undankeppninni. Gerði svo jafntefli við Argentínu í fyrsta leik sínum á HM. Hannes er þó þakklátur þeim sænska.
Alfreð Finnbogason tekur undir með Hannesi.

Hann segir mikinn mun á því trausti sem hann fái nú en þegar Lars og Heimir stýrðu liðinu.
„Ég held að núverandi starfsfólk og leikmenn ættu að fá þakkirnar fyrir árangurinn í undankeppninni og hér í Rússlandi.“
Fleiri leikmenn hafi komið við sögu, liðið hafi styrkt sig og orðið sveigjanlegra þegar komi að leikkerfum. Enginn muni gleyma þætti Lars.
„En athyglin ætti að vera á fólkinu sem er hérna.“
Vísir er með öflugt teymi í Rússlandi sem verður með ítarlegan fréttaflutning af íslenska liðinu á HM. Fylgist með á samfélagsmiðlum okkar - á Facebook, Twitter og Instagram.