Kvikmyndafyrirtækið kíkti einnig í heimsókn þegar íslenska liðið var í Bandaríkjunum þar sem það lék tvo vináttuleiki við Perú og Mexíkó í undirbúningi liðsins fyrir heimsmeistaramótið. Þá hafa þeir einnig heimsótt leikmenn á heimilum þeirra víða um Evrópu.
Þórður Jónsson, sem gerði meðal annars heimildarkvikmyndina Garn, er tengiliður við fyrirtækið og segir að engin dagsetning sé komin á hvenær myndin verði frumsýnd. „Það er ekkert leyndarmál að við erum að gera þessa mynd en ég get lítið sagt annað.“

Sölvi Tryggvason og Sævar Guðmundsson gerðu heimildarmynd um undankeppnina fyrir Evrópumeistaramótið en engin mynd var gerð um keppnina sjálfa. Kvikmyndin Jökullinn logar var einmitt sýnd í borgunum þremur sem landsliðið mun leika í, Moskvu, Volgograd og Rostov við Don. Alls staðar var fullt á sýningum myndarinnar og henni afar vel tekið. Myndin hefur farið víða og verið sýnd á 20 kvikmyndahátíðum í Evrópu, Bandaríkjunum, Mið- og Suður-Ameríku og hafa milljónir manna nú séð hana.
Áhuginn á landsliðinu er gríðarlegur og sagði Ómar Smárason, fjölmiðlafulltrúi KSÍ, að hann hefði fengið um 200 tölvupósta um viðtalsbeiðnir á dag í aðdraganda mótsins. Þá voru um eitt þúsund blaðamenn frá öllum heimshornum að störfum á leik Argentínu og Íslands. Búist er við að enn fjölgi í þeim hópi eftir jafnteflið – sem var í raun sigur.