Daniel Cormier skráði sig á spjöld sögunnar með sigri á Stipe Miocic í nótt. Með sigrinum er hann ríkjandi meistari í þungavigt og léttþungavigt.
Þetta var í fyrsta sinn í sögu UFC þar sem léttþungavigtarmeistarinn skorar á þungavigtarmeistarann. Stipe Miocic hafði varið þungavigtartitil sinn þrívegis fram að bardaganum í kvöld en það er met í þungavigt UFC.
Stipe Miocic byrjaði bardagann vel og var með stjórn á bardaganum framan af. Daniel Cormier kýldi hins vegar þungavigtarmeistarann niður með hægri krók í 1. lotu og fylgdi því eftir með höggum í gólfinu. Cormier fagnaði ógurlega og er hann aðeins annar maðurinn í sögu UFC til að vera meistari í tveimur þyngdarflokkum á sama tíma. Conor McGregor var sá fyrsti til að ná því afreki í nóvember 2016. Með sigrinum er Cormier svo sannarlega meðal þeirra bestu í sögu MMA.
Fyrsta titilvörn Cormier í þungavigt verður að öllum líkindum gegn Brock Lesnar en sá síðarnefndi mætti í búrið eftir bardagann með vandræðaleg læti. Lesnar þarf þó fyrst að klára afplánun keppnisbanns en hann féll á lyfjaprófi árið 2016.
Þeir Francis Ngannou og Derrick Lewis mættust í næstsíðasta bardaga kvöldsins. Óhætt er að segja að bardaginn sé einn sá versti í sögu UFC en afskaplega lítið gerðist í bardaganum. Lewis sigraði eftir dómaraákvörðun og var baulað á báða bardagamenn.
Fyrir utan bardaga Lewis og Ngannou var bardagakvöldið afar skemmtilegt en öll úrslit kvöldsins má sjá á vef MMA Frétta hér.
Daniel Cormier með sögulegan sigur

Tengdar fréttir

Getur Daniel Cormier skráð sig á spjöld sögunnar?
Stærsta bardagakvöld ársins fer fram í kvöld í Las Vegas þar sem tveir ríkjandi meistarar mætast í sannkölluðum ofurbardaga. Daniel Cormier getur skráð sig á spjöld sögunnar með sigri en á erfitt verkefni í vændum.