Marcelo verður í byrjunarliði Brasilíu gegn Belgíu í 8-liða úrslitum HM í Rússlandi á morgun. Tite, landsliðsþjálfari Brasilíu, opinberaði byrjunarliðið í dag.
Marcelo hefur verið að glíma við bakmeiðsli og fór meiddur af velli í leik Brasilíu og Serbíu í riðlakeppninni og spilaði ekki gegn Mexíkó í 16-liða úrslitunum. Brasilíumenn kenndu því um að dýnan sem bakvörðurinn svæfi á væri ekki nógu góð.
Filipe Luis þarf að setjast á bekkinn vegna endurkomu Marcelo. Tite sagðist hafa rætt við þá báða vegna breytinganna.
Casemiro tekur út leikbann gegn Belgum og kemur miðjumaður Manchester City, Fernandinho, inn í hans stað.
Byrjunarlið Brasilíu: Alisson, Fagner, Thiago Silva, Miranda, Marcelo, Fernandinho, Paulinho, Philippe Coutinho, Willian, Neymar, Gabriel Jesus.
