Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og samninganefnd ríkisins þurfa að beita sér af alvöru í því verkefni að koma fram með nýjar og betri aðferðir við að semja við heilbrigðisstéttir um launakjör. Þetta segir Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga í yfirlýsingu vegna kjaradeilu ljósmæðra.
Bjarni lét hafa eftir sér í vikunni að aðferðir Íslendinga við að ná fram niðurstöðu í kjaradeilum væru meingallaðar. Birting fjármálaráðuneytisins á launatölum ljósmæðra og samanburði við aðrar stéttir hefur vakið hörð viðbrögð og er ráðherrann sakaður um að að hella olíu á eldinn í viðkvæmri og alvarlegri deilu.
Hjúkrunarfræðingar segja tölurnar ekki gefa rétta mynd. „Ljósmæður eru að hætta störfum, uppsagnir hafa tekið gildi og eru fleiri uppsagnir yfirvofandi. Hjúkrunarfræðingar hafa horft upp á það í lengri tíma að hjúkrunarfræðingar eru að hætta í starfi, fara í önnur betur launuð störf og sífellt fleiri hjúkrunarfræðinga vantar til starfa. Skrifaðar hafa verið skýrslur, m.a. af Fíh og Ríkisendurskoðun um málið þar sem lagðar eru til leiðir til að bregðast við en lítið ber á raunverulegum aðgerðum til þess að breyta þessu ástandi. Það sama virðist vera að gerast hjá ljósmæðrum,“ segir í yfirlýsingu hjúkrunarfræðinga.
Minna þeir á að íslensk stjórnvöld beri ábyrgð á að landsmenn njóti fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu og að ljósmæður eigi stóran hlut í þeim árangri sem náðst hafi á síðustu áratugum í ungbarna- og mæðravernd.
„Þeim árangri er stefnt í hættu með aðgerðaleysi íslenskra stjórnvalda. Staðan er grafalvarleg og skorar Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga því á fjármálaráðherra og samninganefnd ríkisins að ganga nú þegar til samninga við ljósmæður.“
