Olíusjóðurinn, sem á samtals eignir að virði um 1.100 milljarða Bandaríkjadala, hefur vaxið gríðarlega frá stofnun hans árið 1990 og á sjóðurinn í dag að meðaltali um 2,4 prósenta hlut í hverju einasta skráða fyrirtæki í Evrópu. Ekki er vitað til þess að sjóðurinn eigi eignarhlut í öðrum skráðum félögum í Kauphöllinni á Íslandi en Arion banka.
Við lokun markaða í gær nam hlutabréfaverð Arion banka 86 krónum á hlut og var um fimmtán prósentum hærra en í útboði bankans þegar Kaupþing og vogunarsjóðurinn Attestor seldu um 29 prósenta hlut á genginu 75 fyrir samtals um 39 milljarða. Kaupendur að bréfunum voru að stærstum hluta erlendir fjárfestingarsjóðir á meðan íslenskir fjárfestar – almenningur, fagfjárfestar og lífeyrissjóðir – fengu aðeins að kaupa samanlagt um 9 prósenta hlut.
Nöfn þeirra erlendu sjóða sem fjárfestu í Arion banka hafa enn ekki birst á hluthafalista bankans – fyrir utan sjóði í stýringu Landsdowne, Miton og Eaton Vance sem eiga samanlagt nærri sex prósenta hlut – en eignarhlutur þeirra er í dag skráður í vörslu bandarískra fjárfestingarbanka. Að sögn þeirra sem þekkja vel til nam fjöldi nýrra erlendra fjárfestingarsjóða sem bættust við hluthafahóp bankans í kjölfar útboðsins nærri tuttugu talsins, en þar er einkum um að ræða bandaríska sjóði.
Í flestum tilfellum keyptu sjóðirnir hvor um sig á bilinu um 0,5 til 1 prósents eignarhlut í bankanum en í þeim hópi var meðal annars sjóður í rekstri sænska eignastýringarfyrirtækisins Lannebo Fonder, samkvæmt heimildum Markaðarins.

Fjárfestingarfélagið Stoðir, sem er í meirihlutaeigu meðal annars Jóns Sigurðssonar, Einars Arnar Ólafssonar og Magnúsar Ármann í gegnum eignarhaldsfélagið S121, er stærsti íslenski einkafjárfestirinn í hluthafahópi Arion banka með 0,6 prósenta hlut, eins og upplýst var í Markaðnum í síðustu viku. Samkvæmt lista yfir alla hluthafa miðvikudaginn 20. júní átti félagið samtals 12 milljónir hluta, sem eru metnir á rúmlega milljarð króna miðað við núverandi gengi bréfa bankans.
Þá átti félagið Vogun hf., sem seldi fyrir skemmstu þriðjungshlut sinn í HB Granda, samtals 0,4 prósent af heildarútgefnum bréfum bankans. Markaðsvirði hlutar Vogunar, en stærsti hluthafi þess félags er Kristján Loftsson og fjölskylda í gegnum Fiskveiðihlutafélagið Venus, er í dag um 690 milljónir króna. Eignarhlutur annarra einkafjárfesta í Arion banka er hverfandi.
Samkvæmt hluthafalista Arion banka eiga átta af stærstu lífeyrissjóðum landsins samtals um 3,1 prósents hlut í bankanum. Þar munar mest um 0,65 prósenta hlut Gildis, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins á 0,53 prósent, Frjálsi og Stapi eiga hvor um sig 0,4 prósenta hlut, Lífeyrissjóður verslunarmanna fer með 0,38 prósent og Almenni á 0,35 prósent. Eignarhlutur annarra sjóða – Birtu og Lífsverks – er talsvert minni.