Slagurinn er einnig harður um titil bílasmiða en þar voru það Mercedes sem höfðu 24 stiga forskot fyrir kappaksturinn í Austurríki. Nú er það Ferrari sem er á undan, með tíu stiga forskot á þýska liðið.
Kappaksturinn á Red Bull hringnum í Austurríki byrjaði vel fyrir Hamilton og Mercedes. Eftir fyrsta hring var Bretinn í fyrsta sæti með liðsfélaga sinn, Valtteri Bottas á eftir sér. Fréttirnar urðu svo enn betri fyrir Hamilton þegar hann heyrði að keppinautur sinn, Sebastian Vettel, hefði fallið alla leið niður í áttunda sætið.

Á 14. hring varð Valtteri Bottas frá að hverfa eftir að gírkassi bilaði. Það gengur bara hreinlega ekkert upp hjá Finnanum á þessu tímabili og greinilegt að lukkudísirnar vilja ekkert með hann hafa. Bottas stóð sig með stakri prýði um helgina er hann náði ráspól í tímatökum og var annar er gírkassinn bilaði.
Lewis Hamilton fór inn á viðgerðarsvæðið úr fyrsta sætinu á hring 26 í dekkjaskipti. Fyrir vikið datt Bretinn niður í fjórða sætið þar sem aðrir ökumenn fóru inn nokkrum hringjum fyrr þegar að öryggisbíll var úti á brautinni. Til að bæta gráu ofan á svart tókst Vettel að fara framúr Hamilton nokkrum hringjum seinna.
„Ég gerði mistök í dag en þú hefur möguleika á að bæta upp fyrir þau,“ sagði James Allison, tæknistjóri Mercedes, í talstöðinni til Lewis í kappakstrinum.
Það var svo á 63. hring sem að hræðilegri helgi Mercedes liðsins lauk þegar að vélin aftan í bíl Hamilton gaf upp öndina.

Eins manns dauði er annars brauð og nýtti Ferrari sér þessar hrakfallir og kláruðu keppnina í öðru og þriðja sæti. Vettel þurfti þó að sætta sig við að vera á eftir liðsfélaga sínum, Kimi Raikkonen. Fyrir vikið er Vettel aðeins með eins stigs forskot á aðal keppinaut sinn, Lewis Hamilton.
Það var Max Verstappen á Red Bull sem stóð uppi sem sigurvegari á Red Bull brautinni í Austurríki. Frábær árangur hjá þessum tvítuga snillingi og fyrsti heimasigur Red Bull staðreynd.
Miklar efasemdir voru byrjaðar að myndast um gengi Verstappen í byrjun tímabils og er óhætt að segja að Verstappen sé búinn að þagga niður í þeim. Þetta er fyrsti sigur hans á árinu og er hann jafnframt fjórði mismunandi sigurvegarinn á tímabilinu.
Nú er allt í járnum bæði í keppni ökumanna sem og bílasmiða þegar að Formúlu sirkusinn færir sig yfir til Bretlands. Silverstone kappaksturinn er einn sá sögufrægasti í mótinu og verður gaman að sjá hvað Hamilton gerir á heimavelli í slagnum við Vettel.