Steingrímur er mikill göngu- og útivistarmaður og hefur meðal annars gengið þvert og skáhalt yfir landið. Hann hafði verið á mikilli göngu með sautján öðrum vinum og fjölskyldumeðlimum þegar aðstæður breyttust hratt vegna mikilla vatnavaxta undir lok ferðarinnar þar sem hópurinn strandaði að sögn Steingríms.
„Það var gríðarlegt úrfelli á fjöllunum og rigndi óskaplega þennan dag. Þannig að minnstu sprænur urðu að skaðræðisfljótum. Rétt undir lok gönguleiðarinnar sem er reyndar löng og ströng úr Reykjafirði í Dranga, er fræg Meyjará sem var eignlega orðin að óvæðu stórfljóti,“ segir Steingrímur.
Það hafi verið harðsnúið lið í hópnum sem vant sé útiveru og hafi staðið sig með afbrigðum vel. Dagurinn hafi verið langur því lagt hafi verið af stað upp úr klukkan tíu á sunnudagsmorgun frá Reykjafirði og hópurinn ekki kominn í öruggt skjól fyrr en um klukkan þrjú aðfaranótt mánudags.

Hver óð með þér?
„Það var auðvitað Ragnar bróðir minn Sigfússon. Ég hefði ekki gert þetta án hans. Það ætti frekar að nefna hann í þessu samhengi en ræfilinn mig,“ segir Steingrímur.
Hann telji hópinn ekki hafa verið í bráðri hættu en ekki hafi verið langt í að ofkælingar færi að gæta í hópnum enda geti aðstæður orðið krítískar þegar svona standi á.
„Og tíminn er líka dýrmætur í þessu. En þau stóðu sig auðvitað með afbrigðum vel. Það voru snillingar þarna í hópnum sem tókst að kveikja bál. Þau gátu hlýjað sér við það og það munaði miklu,“ segir Steingrímur J. Sigfússon.