Dómsmál Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað Norðurál Grundartanga af kröfum hrossabóndans á Kúludalsá, Ragnheiðar Jónu Þorgrímsdóttur, sem barist hefur í mörg ár fyrir því að tengsl flúormengunar frá álverinu og veikinda hrossa hennar verði viðurkennd.
Í málinu gerði Ragnheiður miskabótakröfu upp á 21 milljón króna og krafðist auk þess viðurkenningar á skaðabótaskyldu álversins vegna veikinda hrossa hennar og hrossadauða í kjölfar mengunar frá verksmiðjunni.
Ragnheiður, sem annast hefur um hross frá barnsaldri og borið ábyrgð á hrossahaldi áratugum saman, heldur því fram að heilsa hrossa á bænum hafi ávallt verið ágæt og óþekkt að hross veiktust. Þetta hafi gjörbreyst eftir atvik sem varð í álverinu árið 2006 og olli því að styrkur flúors í grasi fór upp fyrir viðurkennd þolmörk grasbíta.
Í málinu var deilt um hvort flúor sem fer út í andrúmsloftið við álbrennsluna valdi þeim veikindum sem hrjáð hafa hross Ragnheiðar.
Samkvæmt niðurstöðu rannsóknar tveggja dýralækna annars vegar frá Matvælastofnun og hins vegar frá tilraunastöðinni á Keldum, sem skoðuðu 21 hross frá Kúludalsá árið 2011, bar meirihluti hrossanna einkenni heilkennisins Equine metabolic syndrome (EMS) sem í dóminum er lýst sem eins konar lífsstílssjúkdómi í hrossahaldi ekki ósvipuðum sykursýki 2 í mönnum þar sem ofát, spiksöfnun og hreyfingarleysi valda efnaskiptatruflunum með alvarlegum afleiðingum.
Í annarri rannsókn, einnig framkvæmdri að beiðni ráðuneytisins, komust Jakob Kristinsson, fyrrverandi prófessor í lyfja- og eiturefnafræði, og Sigurður Sigurðarson dýralæknir hins vegar að þeirri niðurstöðu að bein úr hrossum frá Kúludalsá sýndu ótvírætt að flúormengun á bænum væri mikil og styrkur flúoríðs í beinasýnum um það bil fjórfaldur á við það sem finnst í hrossum á ómenguðum svæðum. Niðurstaða þeirra er sú að það sé flúormengun sem valdi því að hrossin hafi þjáðst af EMS-heilkenninu. Þá telja þeir tæpast hafið yfir nokkurn vafa að flúormengunin komi frá álverinu á Grundartanga.
Í dóminum er það fundið að niðurstöðum þeirra Jakobs og Sigurðar að annars vegar séu áhrif flúormengunar á hross lítt rannsökuð og hins vegar að hross annarra bænda í nágrenni álversins hafi ekki verið rannsökuð. Í Hvalfjarðarsveit séu haldin hross á fleiri bæjum en Kúludalsá og yfir sumartímann séu þau allmörg í nágrenni álversins á Grundartanga. Þrátt fyrir að álverið hafi verið rekið í tvo áratugi hafi enginn eigandi hrossa í nágrenni þess tilkynnt um sams konar veikindi hrossa sinna.
Þó að skýrslan sé ekki talin fullnægjandi sönnunargagn í málinu að mati dómsins er tekið fram að hún sé þarft framlag og góður upphafspunktur fyrir enn vandaðri rannsóknir á áhrifum flúors á hross og grasbíta almennt. Sannanlegar orsakir heilkennisins sem talið er hrjá hrossin á Kúludalsá séu hins vegar fyrst og fremst offóðrun á orkuríku fóðri og hreyfingarleysi. Sjúkdómurinn sem málið sé risið af stafi þannig af því að dýrin bíti meira en þau brenna og hafi þróað með sér sjúkdóminn í tímans rás. Með vísan til þessa og þess að gögn málsins um áhrif álversins á nærumhverfi þess styðji ekki við málatilbúnað Ragnheiðar var Norðurál sýknað af kröfum hennar. Að sögn lögmanns hennar, Daníels Isebarn Ágústssonar, verður niðurstöðunni áfrýjað til Landsréttar.
sighvatur@frettabladid.is
