Rannsóknarskipið Seabed Worker hefur undanfarið lónað yfir flaki SS Minden suður af Íslandi. Leyfi Umhverfisstofnunar til að bjástra við Minden rennur út í dag.
Í umsókn Advanced Marine Services til Umhverfisstofnunar á sínum tíma sagði að ná ætti upp skáp eða kistu sem menn teldu geyma gull.

Fulltrúar Advanced Marine Services hafa ekki vilja ræða við fjölmiðla um Minden-leiðangurinn.
Samkvæmt gögnum sem fram hafa komið voru engir eðalmálmar eða önnur slík verðmæti skráð í farmi SS Minden.
Farmurinn var að stærstum hluta harðviðarkvoða.
Í Fréttablaðinu 29. apríl 2017 var rætt við sagnfræðinginn Þór Whitehead sem kvað ólíklegt að fjársjóðir væru í flakinu.
„Skjöl útgerðarfélagsins um Minden liggja annars djúpt grafin í gögnum þess í ríkissafninu í Hamborg,“ benti sagnfræðingurinn á. Síðar sagði Fréttablaðið frá því að leiðangursmenn teldu gull um borð.
Nú herma heimildir Fréttablaðsins að meðal undirmanna á Seabed Worker gangi sú saga að eitthvað enn mikilvægara en skápur með gulli leynist í Minden.
Hvað það er nákvæmlega sé aðeins á vitorði örfárra manna um borð.