Innlent

Íbúi kom að innbrotsþjófi í stofunni

Sylvía Hall skrifar
Mennirnir gengu á milli húsa í Sundahverfinu rétt fyrir hádegi í dag. Mynd úr Laugardal.
Mennirnir gengu á milli húsa í Sundahverfinu rétt fyrir hádegi í dag. Mynd úr Laugardal. Vísir/GVA
Um hádegisbil í dag urðu íbúar í Sundahverfi í Reykjavík varir við innbrotsþjófa sem gengu á milli húsa og lentu nokkrir í því að miklum verðmætum var stolið.

Árni Páll Árnason, íbúi í hverfinu, segir í samtali við Vísi að mennirnir hafi flakkað á milli húsa og látið greipar sópa.

Hann var sjálfur heima hjá sér þegar hann heyrði umgang og ákvað að athuga málið. Þá var annar maðurinn staddur inni á heimilinu og tók til fótanna þegar hann varð Árna var. Hann segir atferli mannanna benda til þess að þeir hafi verið í annarlegu ástandi.

Mennirnir héldu áfram að flakka á milli húsa og garða þar til lögreglu bar að garði. Annar maðurinn var handtekinn fljótalega skammt frá en hinn maðurinn hafði yfirgefið vettvang.

Lögregla notaðist meðal annars við sporhund björgunarsveitar við að þefa uppi þjófinn, en jakki fannst á vettvangi sem var talinn tilheyra öðrum manninum.

Á meðal þess sem mennirnir stálu af íbúum í götunni voru fartölvur og kampavínsflaska, og var þýfinu komið fyrir í svörtum ruslapoka sem þeir stálu einnig af íbúa. Þýfi úr tveimur innbrotum var endurheimt að sögn lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×