Innlent

Nýr 20 metra hár fallturn í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar

Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn hefur fengið andlitslyftingu í sumar en fjölskyldugarðurinn fagnar 25 ára afmæli í ár. Nýr rúmlega 20 metra hár fallturn hefur verið reistur í garðinum sem verður tekinn í notkun á næstu dögum. 



Garðurinn hefur verið opinn í allt sumar þrátt fyrir miklar framkvæmdir sem staðið hafa yfir. Rigningin í sumar hefur þó gert það af verkum að heimsóknir í garðinn hafa verið færri en venjulega sem að vissu leyti hefur komið sér ágætlega í öllum framkvæmdunum að sögn Þorkels Heiðarssonar, verkefnastjóra í fjölskyldugarðinum.



„Það er búið að vera hérna bæði að endurnýja mikið af svæðum sem voru farin að láta á sjá, hellulangir, torg og ýmislegt hérna inni í Fjölskyldugarðinum, og svo náttúrlega ný tæki,“ segir Þorkell.



Má þar nefna stóran kastala sem vakið hefur mikla lukku svo ekki sé minnst á fallturninn sem reistur var í gærkvöldi.

„Hann kemur frá Ítalíu og er rúmlega 20 metra hár, fallturninn sem var hérna fyrir var um 15 metrar og þessi flytur sætin talsvert hærra,“ segir Þorkell. Þá tekur nýi turninn fleiri farþega og snýst einnig í hringi en Þorkell kveðst sjálfur spenntur að prófa turninn þegar allt verður klárt.

„Hann verður tilbúinn til notkunar fyrir verslunarmannahelgi, það er stefnan,“ segir Þorkell.

Þorkell Heiðarsson, verkefnastjóri í Fjölskyldugarðinum.vísir/skjáskot



Fleiri fréttir

Sjá meira


×