Innlent

Laumuðust til að fara á rúntinn

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Unglingarnir voru stöðvaðir í Grafarvogi.
Unglingarnir voru stöðvaðir í Grafarvogi. vísir/gva
Fjölmargir ökumenn komust í kast við lögin í nótt. Einn þeirra var til að mynda stöðvaður vegna gruns um að aka undir áhrifum fíkniefna. Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að bifreið hans var með röng skráningarmerki og talið er að ökumaðurinn hafi hreinlega klippt þau af annarri bifreið og sett á sína eigin.

Þau voru því tekin af bílnum, sem reyndist vera ótryggður þar að auki, en ekki fylgir sögunni hvort ökumaðurinn hafi verið handtekinn eða hvort hann hafi mátt halda til síns heima að lokinni sýnatöku.

Þá var önnur bifreið stöðvuð á fimmta tímanum í nótt nærri Gagnvegi í Grafarvogi. Ökumaður bílsins reyndist vera 15 ára gamall og því réttindalaus eins og gefur að skilja. Þar að auki var einum farþega ofaukið í bílnum, en allir innanborðs voru á aldrinum 14 til 17 ára að sögn lögreglunnar. Málið var afgreitt með aðkomu móður bílstjórans.

Hún tjáði lögreglumönnum að farþegarnir hefðu verið að gista hjá ökumanninum um nóttina og því virðist vera sem þeir hafi laumað sér út af heimilinu til að fara á rúntinn. Málið var það að auki tilkynnt til barnaverndar.

Hið minnsta þrír aðrir ökumenn voru stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis eða vímuefna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×