Einn var fluttur á slysadeild og annar handtekinn vegna líkamsárásar á Laugardalsvelli í kvöld. Þetta staðfestir Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við Vísi.
Á vellinum fara fram stórtónleikar hljómsveitarinnar Guns N‘ Roses og eru þar samankomnir um 25 þúsund áhorfendur.
Ásgeir segir lögreglu hafa þurft að hafa afskipti af slagsmálum á tónleikasvæðinu í þrígang það sem af er kvöldi. Í einu tilvikinu var árásarmaðurinn handtekinn, og mun hann gista fangageymslur, en þolandinn var fluttur á slysadeild. Ásgeir segir hann ekki alvarlega slasaðan og hafa verið með fullri meðvitund þegar hans var vitjað.
Þá er talsverð ölvun á svæðinu, að sögn Ásgeirs, enda hafi fjöldi fólks mætt snemma á tónleikana í dag og setið lengi við drykkju. Annars hafi gæsla gengið afar vel á svæðinu í kvöld.
„Umferðin gekk mjög vel í aðdragandanum og gestirnir voru allir komnir inn á völlinn fyrir átta, þannig að það er lítið hægt að kvarta yfir því.“
Einn fluttur á slysadeild eftir líkamsárás á tónleikum Guns N' Roses

Tengdar fréttir

Svona verður þjónusta Strætó í kringum stórtónleika Guns N´ Roses
Strætó mun þreyta ákveðna frumraun í kvöld og en fyrirtækið hvetur sem flesta til þess að sýna skilning og þolinmæði á þeim aðstæðum sem kunna að myndast í umferðinni í kringum tónleikasvæðið.

Röðin hlykkjaðist um Laugardalinn
Röð inn á tónleika rokkhljómsveitarinnar Guns N' Roses hlykkjaðist langt upp með Suðurlandsbraut í kvöld enda var talið að um 25 þúsund manns myndu láta sjá sig.

Í beinni: Guns N' Roses á risatónleikum á Laugardalsvelli
Stórsveitin Guns N´Roses stendur fyrir risatónleikum á Laugardalsvelli í kvöld. Talið er að um 25 þúsund manns eigi eftir að láta sjá sig á tónleikunum en rokkararnir stíga á sviðið um klukkan átta í kvöld.