„Ég er reyndar ekki að gera þetta í fyrsta skiptið, þannig að þetta er ekki beint nýtt af nálinni hjá mér – en samt er alltaf mjög langt æfingaferli sem fylgir þessu. Ég er búin að stunda langhlaup mjög lengi – ég byrjaði að hlaupa þegar ég var líklega 21 ára. Mér finnst rosalega heilandi að hlaupa og fæ mikla útrás við það. Ég varð alveg háð þessari hreyfingu þegar ég byrjaði að stunda hana. Það finna allir sína íþrótt og hlaupið er mín íþrótt. Ég byrja flesta morgna á því að hlaupa – alveg sama hvað klukkan er þá verð ég að hlaupa,“ segir María Thelma.
Hún hleypur fyrir UNICEF í ár en hún er búin að hitta fólkið hjá UNICEF til að fræðast um starfsemina og hvert styrkurinn fer hjá þeim í ár. „Ég hef verið mjög áhugasöm um samstarfið í mjög langan tíma. Það er mjög gefandi að sjá árangurinn frá okkur skila sér einhvers staðar hinum megin á hnettinum. Maður er aldrei búinn að styrkja málefni – það eru alltaf milljón manns sem þurfa á hjálp að halda bæði á stríðssvæðunum og í þróunarlöndunum. Þetta er svo lítil upphæð fyrir okkur sem gerir gæfumuninn og getur jafnvel bjargað lífi. Þúsund krónur, sem er svona einn bjór hjá okkur, samsvarar viku næringarmeðferð hjá barni. Þannig að það þarf lítið til að hafa góð áhrif. Ég tala nú ekki um að ef maður er leikari og er svo heppin að fá einhverja rödd til að þjóna æðri tilgangi þá er góðgerðastarfsemi algjörlega það sem röddin ætti að nýtast í.“

Íslendingar öllu vanir
María er að vonum ánægð með árangurinn hjá sér í Cannes og hlutverk sitt í myndinni Arctic – en hún gefur nú ekki mikið fyrir að hún sé fræg þegar blaðamaður ber það upp við hana, enda erum við öll bara Íslendingar sem sjáumst í Kringlunni á sunnudögum.„Ég var í Cannes að frumsýna mína fyrstu kvikmynd sem heitir Arctic og var tekin upp hérna á Íslandi fyrir ári. Hún var tekin upp í snjó og kulda og erfiðum aðstæðum. Við erum tvö í myndinni, ég og Mads Mikkelsen. Þetta var auðvitað alveg æðislegt. Mér þótti vænst um að sjá alla sem komu að myndinni – „crewið“ var allt Íslendingar. Það var alveg geggjað að sjá hvert Íslendingar eru komnir á heimsmælikvarða hvað varðar kvikmyndagerð – þetta er svo mikið fagfólk. Ég er endalaust stolt af okkar mönnum og án þeirra væri myndin ekki til. Ég vil meina að við Íslendingar séum vanir öllum mögulegum aðstæðum. Við vorum að taka upp í alveg ótrúlega miklum kulda, snjór upp að hné allan tímann – krúið þarf að vera úti allan tímann. Þannig að ég get ekki annað en verið stolt.“