Viðskipti innlent

Hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu jókst milli ára

Þórhildur Erla Pálsdóttir skrifar
Hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu jókst milli ára.
Hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu jókst milli ára. Vísir/Stefán
Bráðabirgðaniðurstöður ferðaþjónustureikninga gefa til kynna að hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu hafi numið 8,6% árið 2017. Þetta er aukning frá fyrri árum en til samanburðar nam hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu 8,1% árið 2016 og 6,2% árið 2015. Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands.

Þessi aukning í hlutdeild af landsframleiðslu var nokkuð minni árið 2017 en árin 2015 og 2016 en sambærileg því sem hún var á árunum 2012 til 2014. Ferðaþjónustureikningar eru hliðarreikningar þjóðhagsreikninga og er þeim ætlað að leggja mat á hlut ferðaþjónustunnar í hagkerfinu og þroun hennar sem atvinnugrein.

Komur erlendra ferðamanna hingað til lands voru alls 2.690.465 árið 2017 sem er 25,4% aukning frá fyrra ári. Flestir ferðamenn sem koma til landsins eru gistifarþegar sem koma með millilandaflugi. Gistifarþegum fjölgaði um 24,1% sem er mun meiri aukning en í fjölda gistinátta en þeim fjölgaði um 7,3%.

Útgjöld erlendra ferðamanna meiri

Heildarútgjöld erlendra ferðamanna námu 376,6 milljörðum króna árið 2017 en þau námu 346 milljörðum króna árið 2016. Tæpur fjórðungur útgjaldanna kom til vegna kaupa á gistiþjónustu eða 85,6 milljarðar króna. Eins greiddu erlendir ferðamenn 71,4 milljarða til ferðaskipuleggjenda og ferðaskrifstofa og 65 milljarða til innlendra flugfélaga bæði vegna fargjalda hingað til lands og innanlands.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×