Fjórir meðlimir rússneska aðgerðahópsins Pussy Riot segjast hafa verið handteknir um leið og þeim var sleppt úr fangelsi í dag. Þrjár konur og einn karlmaður voru handtekin fyrir að hlaupa inn á völlinn í úrslitaleik heimsmeistaramótsins í knattspyrnu fyrr í þessum mánuði.
Þau Pjotr Verzilov, Nika Nikulsjína, Olga Kúratsjova og Olga Pakhtúsjova voru fangelsuð fyrir uppátækið. Rússnesk yfirvöld sökuðu þau um að hafa brotið reglur fyrir áhorfendur á íþróttaviðburðum og um að hafa klæðst lögreglubúningum ólöglega.
Hópurinn sagðist mótmæla mannréttindabrotum í Rússlandi með gjörningnum. Þeim hefur verið bannað að mæta á íþróttaviðburð í þrjú ár.
Breska ríkisútvarpið BBC segir óljóst hvers vegna fjórmenningarnir voru aftur hnepptir í varðhald í dag. Verzilov tísti í dag að þau hafi verið tekin höndum þegar þau ætluðu að yfirgefa fangelsið. Þau hafi ekki verið ákærð fyrir frekari brot.