Fimmta kjördæmi Virginíu til Bandaríkjaþings hefur verið nokkuð öruggt vígi Repúblikanaflokksins undanfarin ár. Staða frambjóðanda flokksins fyrir kosningarnar sem fara fram í nóvember er nú óvenjuveik eftir furðulega atburðarás þar sem Stórfótarerótík kemur við sögu.
Denver Riggleman er fyrrverandi leyniþjónustumaður bandaríska flughersins og brugghúseigandi. Hann var valinn frambjóðandi flokksins til fulltrúadeildar Bandaríkjaþings í kjördæminu fyrr á þessu ári. Hann er jafnframt meðhöfundur bókar um Stórfót, goðsagnarkenndrar veru sem líkist mannapa, sem kom út árið 2006, samkvæmt umfjöllun vefsíðunnar Vox.
Áhugi Riggleman á Stórfóti virðist þó hafa verið meiri en fræðilegur. Leslie Cockburn, frambjóðandi Demókrataflokksins, birti í gær myndir sem Riggleman hafði birt á samfélagsmiðlum sem sýna Stórfótinn í nýju og erótísku ljósi.
My opponent Denver Riggleman, running mate of Corey Stewart, was caught on camera campaigning with a white supremacist. Now he has been exposed as a devotee of Bigfoot erotica. This is not what we need on Capitol Hill. pic.twitter.com/0eBvxFd6sG
— Leslie Cockburn (@LeslieCockburn) July 29, 2018
Meintur áhugi Riggleman á kynfærum og ástarlífi Stórfótar gæti þó til lengri tíma litið fallið í skuggann af ásökunum um tengsl hans við hvíta þjóðernissinna. Corey Stewart, frambjóðandi flokksins til öldungadeildar Bandaríkjaþings, hefur markað sér stöðu í kosningabaráttunni sem stoltur suðurríkjamaður.
Riggleman hefur ekki viljað taka af skarið um hvort að hann ætli að heyja baráttuna við hlið Stewart en hann hefur borið af sér tengsl við hvíta þjóðernishyggju. Fordæmdi hann meðal annars mótmæli hvítra þjóðernissinna, nýnasista og Ku Klux Klan-liða sem haldin voru í borginni Charlottsville í Virginíu í fyrra sem enduðu með því að öfgamaður ók á unga konu með þeim afleiðingum að hún lést.