Viðskipti innlent

Bandaríkjamenn komu í veg fyrir fækkun

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Samsetning ferðamannahópsins er að breyta.
Samsetning ferðamannahópsins er að breyta. Vísir/ernir
Samkvæmt talningum Ferðamálastofu og Isavia í Flugstöð Leifs Eiríkssonar voru brottfarir erlendra farþega frá Íslandi rúmlega 278.600 í júlí sem er 2,5% fjölgun miðað við júlí í fyrra.

Fram kemur í tilkynningu frá Ferðamálastofu að fjölgunin í júlí byggi að mestu leyti á Bandaríkjamönnum sem hafa aukið hlutdeild sína til muna. Rúmlega 27% fleiri Bandaríkjamenn fóru frá Leifsstöð í júlí í ár en á sama tíma í fyrra. Norðurlandabúum, Bretum, Frökkum, Þjóðverjum og Kanadamönnum, sem einnig tilheyra mikilvægum markaðssvæðum fyrir Ísland, fækkaði hins vegar um 9-19% í júlí á milli ára. Ef fjöldi Bandaríkjamanna hefði staðið í stað milli ára hefði brottfararfarþegum í júlí fækkað um 5,6%.

Frá áramótum hafa rúmlega 1.300 þúsund erlendir farþegar farið frá Íslandi um Leifsstöð sem er tæplega 5% fjölgun miðað við sama tímabil í fyrra.

„Athygli vekur að raunfjöldi brottfararfarþega í júlí er nokkru meiri en uppfærð spá ISAVIA fyrir ferðasumarið 2018 sem kynnt var í 30. maí sl. Þar var áætlað að fjöldi erlendra brottfararfarþega yrði tæplega 242 þúsund í júlí eða 36 þúsundum færri en fóru frá landi. Sömu sögu er að segja í júní en þá fóru rúmlega 19 þúsund fleiri farþegar frá Íslandi en gert var ráð fyrir í spá ISAVIA,“ segir í tilkynningunni.

Rúmlega 66 þúsund Íslendingar fóru utan í júlí í ár eða 6% fleiri en í júlí 2017. Samtals voru brottfarir Íslendinga á tímabilinu janúar til júlí rúmlega 389 þúsund talsins eða 10,7% fleiri en á sama tímabili árið 2017.


Tengdar fréttir

Stöðnun í farþegaflutningum Icelandair

Það sem af er ári hefur farþegum Icelandair aðeins fjölgað um 0,1 prósent miðað við sama tímabil í fyrra. Sætanýting hefur auk þess verið lakari alla mánuðina nema einn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×