Körfubolti

WNBA lið reyndi í 25 tíma að komast á staðinn en þurfti að gefa leikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Las Vegas Aces.
Leikmenn Las Vegas Aces. Vísir/Getty
Leikur Las Vegas Aces og Washington Mystics í WNBA-deildinni í körfubolta átti að fara fram um síðustu helgi en ekkert varð þó af leiknum.

Leikmenn Las Vegas Aces komust nefnilega ekki á staðinn. Í fyrstu var ákveðið að fresta leiknum en yfirmenn WNBA-deildarinnar hafa nú ákveðið að leikurinn teljist tapaður hjá liði Las Vegas Aces.

Ástæðan er að Las Vegas Aces mætti ekki á staðinn. Það var þó ekki af því að þau reyndu ekki að komast til Washington borgar.

Leikmenn og þjálfarar Las Vegas Aces eyddu 25 klukkutímum á flugvöllum og í flugvélum í tilraunum sínum við að komast frá Las Vegas til Washington.







Þau lentu hinsvegar í miklum ógöngum vegna þess að fjölmörg flug féllu niður þennan dag.

Liðin í NBA deildinni ferðast í einkaflugvélum en sömu sögu er ekki að segja af kvennaliðunum.

Leikmennirnir í WNBA fá ekki slíkan lúxus heldur þurfa þeir að ferðast með venjulegu áætlunnarflugi í leikina sína.

Tapið er slæmt fyrir Las Vegas Aces í baráttu liðsins fyrir að komast í úrslitakeppnina en fyrir þessi úrslit var liðið aðeins einum og hálfum sigri frá síðasta sætinu sem hefur farseðil í úrslitakeppnina.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×