Erlent

Skógareldarnir í Portúgal nálgast vinsæla ferðamannastaði

Atli Ísleifsson skrifar
Íbúar Portimao óttast að eldarnir gætu náð alla leið til bæjarins.
Íbúar Portimao óttast að eldarnir gætu náð alla leið til bæjarins. Vísir/ap
Skógar- og kjarreldarnir í suðurhluta Portúgals hafa haldið áfram síðustu dagana og nálgast nú nokkra vinsæla ferðamannastaði í landinu. Yfirvöld í Portúgal hafa fjölgað í slökkvi- og björgunarliði sem berst við eldana.

Sky News greinir frá því að óttast sé að eldarnir gætu dreift sér til bæjarins Portimao, vinsæls bæjar fyrir ferðamenn milli bæjanna Praia da Luz, Lagos og Amacao de Pera á suðurströnd landsins.

Eldarnir í grennd við Portimao blossuðu upp meðal trölla- og furutrjáa á hæðum í grennd við bæinn í miðri hitabylgjunni sem herjað hefur á íbúa Íberíuskaga síðustu daga.

Eldarnir hafa hægt og bítandi verið að nálgast ströndina þar sem þúsundir heimamanna og erlendra ferðamanna njóta sólarinnar á sumrin ár hvert.

Þrátt fyrir aðgerðir yfirvalda til að koma í veg fyrir að hörmungar síðasta árs – þar sem 114 manns fórust í skógareldum í landinu – endurtaki sig, hafa skipuleggjendur björgunaraðgerða sætt gagnrýni. Enn hefur þó enginn látið lífið og búið er að rýma þorp í grennd við eldana. Alls hafa þrjátíu manns verið fluttir á sjúkrahús vegna gruns um að hafa orðið fyrir reykeitrun.

Alls berjast 1.320 slökkviliðsmenn við eldana í Portúgal. Notast hefur verið við 420 dælubíla og sautján slökkviflugvélar. Um 20 þúsund hektarar lands hafa brunnið síðan á föstudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×