Samkvæmt tilkynngu Hróksins fengu öll börnin í Kulusuk gjafir og gleðin var allsráðandi, en frábærum degi lauk með æsispennandi fótboltaleik á splunkunýjum sparkvelli.
Þaðan lá leiðin til Tasiilaq, sem er höfuðstaður Austur-Grænlands. Þar var slegið upp alhliða veislu í félagsheimilinu, þar sem Hrafn tefldi við tugi heimamanna á öllum aldri, meðan Birkir Blær og Jónas Margeir léku listir sínar.
Fjölmargir komu að fylgjast með, og brustu sumir í dans undir tónaflóðinu meðan taflið stóð sem hæst. Sannarlega frábær hátíðardagur, til minningar um Gerdu Vilholm, heiðursfélaga Hróksins og máttarstólpa barnanna í Tasiilaq. Justus Hansen, þingmaður á grænlenska þinginu og Hróksliði með meiru, minntist Gerdu, sem lést í janúar á síðasta ári, í fallegri setningarræðu.

Sigurvegari dagsins í minningarveislunni um Gerdu Vilholm var hin 10 ára gamla Anitse Kuitse, sem sat ein eftir þegar Hrafn hafði lokið öðrum skákum. Hún fékk veglegan bikar að launum, og allir mótherjar Hrafns hlutu gullpeninga og önnur verðlaun í boði Kiwanis-klúbbsins Heklu.
Sérstakra vinsælda nutu íslensku landsliðstreyjurnar, sem KSÍ lagði til, enda óhætt að segja að næstum hver einasti Grænlendingur haldi með strákunum okkar. Með þessum viðburði var botn sleginn í Polar Pelagic-hátíðina, sem hófst í Kulusuk í janúar. Þá öftruðu veðurguðir ferð Hróksliða frá Kulusuk til Tasiilaq, en sólin baðar nú hina fögru austurströnd Grænlands.
Hróksliðar hafa jafnframt heimsótt vini sína á PITU, sem er heimili fyrir börn sem ekki geta dvalið hjá fjölskyldum sínum. Þar fengu börnin ýmsar góðar gjafir, m.a. föt og spjaldtölvur í boði Tölvulistans. Leiðin lá líka á dagheimili sem rekið er af góðgerðarsamtökum og þar var slegið upp stórtónleikum og gjafir afhentar. Börnin í Tasiilaq og Kulusuk nutu góðs af framlagi íslenskra prjónakvenna, ekki síst prjónahópnum í Gerðubergi, en þær hafa á síðustu árum nestað Hróksmenn með óteljandi gjafir til grænlenskra barna.