Innlent

17 ára grunaður um innbrot við Holtaveg

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Tveir menn eru grunaðir um að hafa brotist inn á heimili við Holtaveg.
Tveir menn eru grunaðir um að hafa brotist inn á heimili við Holtaveg. Vísir
Tveir ungir menn voru á ellefta tímanum í gærkvöldi handteknir grunaðir um húsbrot við Holtaveg í Reykjavík. Mennirnir voru vistaðir í fangageymslu lögreglu á meðan rannsókn fór fram og skýrslur teknar. Annar þeirra, sem handteknir voru, er aðeins 17 ára og var móðir hans viðstödd skýrslutöku og tilkynning send til Barnaverndar.

Þetta kom fram í dagbók Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Laust fyrir klukkan sjö í gærkvöldi voru afskipti höfð af ökumanni bifreiðar á Bústaðavegi við Sprengisand. Ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og áfengis. Farþegi í bílnum reyndist vera eftirlýstur vegna fullnustu dóms. Maðurinn var handtekinn og færður á viðeigandi stofnun.

Á tólfta tímanum í gærkvöldi voru afskipti höfð af fjórum mönnum í bifreið við Bústaðaveg. Mennirnir framvísuðu ætluðum fríkniefnum sem einn þeirra sagðist eiga. Maðurinn er grunaður um vörslu, sölu og dreifingu fíkniefna.

Bifreið var stöðvuð við Jafnasel á sjöunda tímanum í gærkvöldi. Ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og að hafa ekið ítrekað sviptur ökuréttindum.

Laust eftir klukkan þrjú í nótt var bifreið stöðvuð á Breiðholtsbraut. Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum áfengis og fíkniefna og fyrir að hafa ekið ítrekað sviptur ökuréttindum.

Klukkan sjö í gær stöðvaði lögregla bifreið á Suðurlandsvegi við Sandskeið eftir hraðamælinguna 157/90 km/klst. Ökumaðurinn var í framhaldinu sviptur ökuréttindum til bráðabirgða.

Bifreið án skráningarnúmers var stöðvuð á Vesturlandsvegi við Húsasmiðjuna klukkan ellefu í gærkvöldi. Ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.

Bifreið var klukkan 00:29 stöðvuð á Gullinbrú eftir hraðamælingu 126/60. Ökumaðurinn var aðeins 17 ára og færður á lögreglustöð þar sem hann var sviptur ökuréttindum til bráðabirgða. Móðir ökumanns sótti drenginn á lögreglustöðina og tilkynning var send til Barnaverndar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×