Körfubolti

Melo fékk 2,7 milljarða í laun fyrir fimm daga hjá Atlanta Hawks

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carmelo Anthony.
Carmelo Anthony. Vísir/Getty
Carmelo Anthony var aðeins leikmaður NBA körfuboltaliðsins Atlanta Hawks í fimm daga og spilaði ekki einn einasta leik fyrir félagið. Hann fékk engu að síður ríkulega borgað fyrir þessa fimm daga.

Atlanta Hawks keypti upp samninginn hans og þurfti að borga Melo 25,5 milljónir dollara fyrir það. Það gerir rúmlega 2,7 milljarða íslenskra króna.







Atlanta Hawks hafði fengið samninginn hjá Carmelo Anthony upp í hendurnar í leikmannaskiptum sínum við Oklahoma City Thunder fyrr í sumar.

Oklahoma City Thunder losaði sig við Melo til að minnka launaþakskattinn sinn og fékk í staðinn þá Dennis Schröder frá Hawks og Timothé Luwawu-Cabarrot frá Philadelphia 76ers.

Carmelo Anthony lék í eitt tímabil með Oklahoma City Thunder en hann kom þangað í leikmannaskiptum við New York Knicks.

Anthony var með 22,4 stig að meðaltali í leik á síðasta tímabili sínu með New York en skoraði bara 16,2 stig í leik á síðasta tímabili með Thunder. Stoðsendingarnar fóru líka niður úr 2,9 í 1,3 og þá hitti hann líka verr eða 40 prósent 2017-18 á móti 43 prósent 2016-17.

Nú er búist við því að Carmelo Anthony geri eins árs samning við Houston Rockets á svokölluðum „lágmarkslaunum“ enda þarf hann ekki mikið að kvarta eftir launaseðilinn myndarlega frá Atlanta Hawks.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×