Innlent

Ók á rafmagnskassa og olli rafmagnsleysi

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Ökumaðurinn var handtekinn, látinn sofa úr sér á lögreglustöðinni og yfirheyrður í morgun.
Ökumaðurinn var handtekinn, látinn sofa úr sér á lögreglustöðinni og yfirheyrður í morgun. Vísir/Auðunn
Lögreglan á Norðurlandi eystra handtók í nótt ökumann, sem grunaður er um ölvun við akstur, en hann er talinn hafa ekið á kyrrstæðan bíl ofarlega í Þórunnarstræti á Akureyri og í framhaldinu ekið á ljósastaur og rafmagnskassa með þeim afleiðingum að rafmagnið fór af nærliggjandi húsum. MBL.is greindi fyrst frá þessu.

Sigurður Sigurðsson, varðstjóri, segir að að tilkynningin hafi borist lögreglu laust fyrir miðnætti í nótt. Lögreglustöðin á Akureyri er til húsa í sömu götu og umferðaróhappið átti sér stað en aðspurður segist Sigurður að lögreglustöðin hafi ekki orðið fyrir rafmagnsleysinu því óhappið átti sér stað mun ofar í götunni.

Ökumaðurinn lagði bílnum í nálægð við rafmagnskassann en að því búnu hélt hann heim til sín. Sigurður segir að það hafi ekki verið neinn vandi að finna ökumanninn því lögreglan þurfti aðeins að fletta því upp hver væri skráður eigandi bifreiðarinnar.

Maðurinn var handtekinn og látinn sofa úr sér á lögreglustöðinni. Hann var yfirheyrður í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×