Þjófnaðurinn átti sér stað í hádeginu í gær. Þjófarnir eru sagðir hafa laumað sér inn í dómkirkjuna, sem gnæfir yfir smábæinn vestan af Stokkhólmi, en hún var opin fyrir gesti og gangandi. Þeir gripu með sér tvær kórónur og veldishnetti á meðan athygli fólks beindist að sýningu sem fram fór á torginu fyrir framan kirkjuna.
Munirnir eru frá upphafi 17 aldar, úr valdatíð Karls níunda Svíakonungs, og eru taldir ómetanlegir.
Tom Rowell, maður sem hyggst gifta sig í dómkirkjunni í næstu viku, sagðist í samtali við Aftonbladet hafa séð tvo menn hlaupa út úr kirkunni, hoppa upp í hvítan hraðbát og bruna af stað.

Starfsmaður dómkirkjunnar tekur í sama streng og lýsir þjófnaðinum sem „gríðarlegu menningarlegu- og fjárhagslegu tjóni.“
Lögreglan hefur blásið til umfangsmikillar leitar, sem hefur lítinn árangur borið enn sem komið er.
„Staðan er 1-0 fyrir þeim þessa stundina,“ segir talsmaður lögreglunnar í samtali við Aftonbladet.