Innlent

300 þúsund króna sekt fyrir utanvegaakstur frönsku ferðamannanna

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ferðamennirnir greiddu sekt sína á lögreglustöðinni á Egilsstöðum í morgun.
Ferðamennirnir greiddu sekt sína á lögreglustöðinni á Egilsstöðum í morgun. vísir/gva
Frönsku ferðamönnunum sex, sem uppvísir urðu að utanvegaakstri á hálendinu um helgina, var gert að greiða samtals þrjú hundruð þúsund króna sekt fyrir brot sín. Þetta staðfestir Jónas Vilhelmsson Jensen, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Austurlandi, í samtali við Vísi.

Sjá einnig: Franskir ferðamenn ollu varanlegum skemmdum með utanvegaakstri

Vísir greindi frá málinu í gær en ferðamennirnir ollu varanlegum skemmdum á jarðvegi við Þríhyrningsá. Þeir höfðu verið á ferð um veginn F910, einnig þekktur sem Austurleið, á þremur bílum.

Jónas segir í samtali við Vísi að ferðamennirnir hafi komið til skýrslutöku á lögreglustöðina á Egilsstöðum um klukkan ellefu í morgun. Málinu lauk með sektargreiðslu, hundrað þúsund krónum á hvern bíl. Samtals nemur sektin því þrjú hundruð þúsund krónum á hópinn og hafa ferðamennirnir þegar gengið frá greiðslu.

„Það var aðeins farið yfir málin. Við erum ekki að fara að taka létt á svona hlutum, hvorki hjá Íslendingum né útlendingum. Þetta er það sem koma skal ef menn verða staðnir að svona brotum,“ segir Jónas um skýrslutökuna og sektargreiðslurnar í dag.

Nokkuð bar á því að fólk teldi sektir á bilinu 50 til 500 þúsund krónur of lágar fyrir utanvegaakstursbrot, þar eð varðstjóri sagði í samtali við Vísi í gær að sekt Frakkanna yrði lægri en sú sem samlandar þeirra við Kerlingafjöll greiddu í maí. Sú sekt nam 400 þúsund krónum, þ.e. 200 þúsund krónum á mann. Í því samhengi vísaði Jónas á ákæruvaldið, sem hefði sektarfjárhæðir á sinni könnu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×