Innlent

Glannalegur framúrakstur strætisvagns í Þrengslum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Eins og sést á skjáskoti úr myndbandinu smeygði strætisvagninn sér með  naumindum á milli bíls Vigfúsar og bíls sem kom á móti honum úr gagnstæðri átt.
Eins og sést á skjáskoti úr myndbandinu smeygði strætisvagninn sér með naumindum á milli bíls Vigfúsar og bíls sem kom á móti honum úr gagnstæðri átt. Mynd/Skjáskot
Litlu mátti muna að illa hefði farið þegar strætisvagni var ekið fram úr á leið til Reykjavíkur um Þrengsli síðdegis á föstudag. Bílstjóri bifreiðar sem ekið var á móti strætisvagninum deildi myndbandi af atvikinu og hvetur fólk til að fara varlega í  umferðinni.

Myndbandið er tekið upp á bílamyndavél Vigfúsar Markússonar sem sjálfur var á austurleið. Hann sat við stýri þegar strætisvagn á leið 51 tók fram úr nokkrum bílum og kom þannig á fleygiferð úr gagnstæðri átt, á sömu akrein og Vigfús. Litlu mátti muna að vagninn hefði lent framan á bíl Vigfúsar eins og sést á meðfylgjandi myndbandi.

„Við vorum að koma þarna niður Þrengslin og svo sá ég bara að strætóinn tekur fram úr bílunum þarna í miðri brekkunni,“ segir Vigfús í samtali við Vísi.

„Ég held að ég hafi verið á um það bil 80-90 kílómetra hraða en var kominn niður í 50 þegar hann skaust fram hjá okkur. Ég veit ekki hvað hefði orðið ef maður hefði ekki hægt á sér. Svo var þetta í brekku, þannig að þetta er svolítið glannalegt.“

Þá bendir Vigfús á að framúrakstur er ekki leyfður á umræddri akrein í suður en bílstjóri vagnsins hafi samt sem áður tekið fram úr bílunum. Hann beinir því jafnframt til fólks að fara varlega og fylgjast vel með í umferðinni.

Töluverð umferð var um Þrengslin á föstudag vegna lokunar á Hellisheiði. Myndband Vigfúsar má sjá í heild í spilaranum hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×