Hin tvítuga Jamie Chadwick skrifaði sig í sögubækurnar um síðustu helgi er hún varð fyrsta konan til að sigra í bresku Formúlu 3 mótaröðinni.
Fyrrum sigurvegarar í þessari keppni eru goðsagnir eins og Ayrton Senna og Mika Hakkinen, einnig vann Daniel Ricciardo keppni í mótaröðinni á sínum tíma.
Chadwick byrjaði að keppa í Go Kart aðeins 11 ára gömul en segir það ekki aftra sér að vera kona í íþrótt sem karlar eru í miklum meirihluta.
„Aðrir keppendur eru mjög vinalegir og hjálpsamir, en um leið og hjálmurinn fer á hausinn vilja allir vinna,“ sagði Jamie í viðtali við BBC. „Þeir vilja ekki endilega vinna mig bara vegna þess að ég er stelpa.“
Sigurinn um síðustu helgi segir Chadwick vera stórt skref áfram fyrir konur í akstursíþróttum og stefnir hún að þátttöku í Formúlu 1 í framtíðinni.
Fyrsta konan sem sigrar Formúlu 3
