Innlent

Foreldrum í nágrenni árásanna bent á að gera viðeigandi ráðstafanir

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá Garðabæ.
Frá Garðabæ. Vísir/Egill
Foreldrum í Garðabæ hefur verið bent á að ræða við börn sín og gera viðeigandi ráðstafanir vegna tíðra árása á stúlkur í bænum undanfarnar vikur. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Garðabæ. Lögregla hefur nú til rannsóknar fimm slíkar árásir og ætlar að sami maður sé að verki.

Í tilkynningu frá bænum sem birt var í dag kemur auk þess fram að starfsmenn bæjarfélagsins hafi ekki upplýsingar um árásirnar umfram það sem haft hefur verið eftir lögreglu í fjölmiðlum.

Áhyggjur hafi þó vaknað varðandi öryggi skólabarna á leið heim úr skóla eða í frístundastarf vegna árásanna, sem hafa almennt verið framdar síðdegis. Í skólum í nágrenni við vettvang hefur foreldrum því verið bent á að ræða við börn sín og gera viðeigandi ráðstafanir.

Sjá einnig: Stúlkan dregin á bak við hól á leikvelli

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu greindi frá því í gærkvöldi að hún hefði til rannsóknar tvö ný tilvik þar sem ráðist var á stúlkur á gangi í Garðabæ síðdegis í gær. Eru því alls fimm sambærilegar árásir til rannsóknar hjá lögreglu. Allar stúlkurnar sem veist hefur verið að eru á svipuðum aldri, eða um átta til tíu ára gamlar.

Lögregla hefur árásirnar til rannsóknar og hefur aukið eftirlit í hverfinu. Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur málið vakið mikinn ugg meðal íbúa í Garðabæ.

Þá hefur lögregla auglýst eftir einstaklingum sem gætu veitt frekari upplýsingar um árásirnar. Jafnframt eru allir þeir sem kynnu að búa yfir upplýsingum um árásina hvattir til að hafa samband við lögreglu.


Tengdar fréttir

Auka eftirlit í Garðabæ vegna árása

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur ákveðið að auka eftirlit í Garðabæ vegna tveggja atvika þar sem tilkynnt var um að veist hafi verið að stúlkum í Garðabæ í dag.

Stúlkan dregin á bak við hól á leikvelli

Ráðist var á tvær ungar stúlkur í Garðabæ í gær og eru nú fimm sambærileg tilvik til rannsóknar. Að sögn lögreglu er málið í algjörum forgangi og unnið er út frá því að sami maður sé að verki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×