Erlent

Umhverfisráðherra Frakklands hættir vegna athafnaleysis í loftslagsmálum

Kjartan Kjartansson skrifar
Hulot tilkynnti um afsögn sína í útvarpsviðtali. Sagðist hann hafa tekið ákvörðunina á staðnum og ekki einu sinni konan hans hafi vitað af henni fyrir fram.
Hulot tilkynnti um afsögn sína í útvarpsviðtali. Sagðist hann hafa tekið ákvörðunina á staðnum og ekki einu sinni konan hans hafi vitað af henni fyrir fram. Vísir/EPA
Nicolas Hulot sagði fyrirvaralaust af sér sem umhverfisráðherra í ríkisstjórn Emmanuels Macron, forseta Frakklands, í útvarpsviðtali í dag. Hulot vísaði til þess að ríkisstjórn Macron hefði aðeins stigið „lítil skref“ í að bregðast við loftslagsbreytingum.

Gagnrýndi Hulot ríkisstjórnina fyrir að ætla að halda í kjarnorku í nýrri orkustefnu fyrir næsta áratuginn sem hún vinnur nú að. Markmið áætlunarinnar er meðal annars að draga úr notkun kjarnorku. Hulot er einnig ósáttur við að Macron hafi ekki gengið nógu hart fram gegn skordýraeitri, verndun líffræðilegs fjölbreytileika og landeyðingu.

Tilkynnti hann um afsögn sína í útvarpsviðtali án þess að hafa látið Macron eða forsætisráðherrann vita um áform sín fyrir það. Sagðist Hulot hafa upplifað sig „aleinan“ í ríkisstjórninni, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Afsögn Hulot þykir áfall fyrir Macron, að sögn Bloomberg-fréttastofunnar. Hulot hefur verið áberandi og vinsæll umhverfisverndarsinni í Frakklandi í áraraðir og var einn þekktasti ráðherrann í ríkisstjórninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×