Mannréttindasérfræðingar Sameinuðu þjóðanna segjast telja að allir þeir sem eiga aðild að stríðsátökunum í Jemen hafi gerst sekir um stríðsglæpi. Hvorki stjórnarher Jemens, bandalagsher Sáda sem styður hann, né uppreisnarmenn Húta hafi reynt að takmarka mannfall óbreyttra borgara.
Sérfræðingarnar vísa til árása á íbúðarhverfi þar sem þúsundir Jemena hafa fallið, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC. Bandalagsherinn hafi valdið mestu mannfallinu í slíkum árásum. Allir stríðsaðilar hafi tekið fólk höndum utan dóms og laga, stundað pyntingar, látið fólk „hverfa“ og fengið börn til liðs við sig.
Niðurstöður sérfræðinganna verða kynntar í skýrslu til mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í september.
Stríðið í Jemen hefur geisað frá árinu 2015. Uppreisnarmenn Húta hafa sölsað undir sig stóran hluta landsins. Sádí-Arabía og Sameinuðu arabísku furstadæmin ásamt sjö öðrum arabaríkjum hafa hlutast til í landinu til aðstoðar stjórnarhernum. Bandalagsherinn hefur notið stuðnings Breta, Bandaríkjamanna og Frakka.
Telja alla stríðsaðila í Jemen seka um stríðsglæpi

Tengdar fréttir

Mótmæli þegar jemensku börnin voru borin til grafar
Fjörutíu börn, sem öll voru fimmtán ára eða yngri, fórust í árás hers Sáda á rútu á markaði í bænum Dahyan í Saada-héraði í norðvesturhluta Jemen síðastliðinn fimmtudag.

CNN merkir vopnaframleiðendum fjöldamorð almennra borgara á korti af Jemen
Bandaríska fréttastöðin CNN byrjaði í gær að birta niðurtöður umfangsmikilla rannsókna sinna á mannfalli almennra borgara í Jemen. Niðurstöðurnar sýna að sprengjurnar, sem hafa orðið fjölda barna og annarra almennra borgar að bana, eru bandarískar.

Tugir barna féllu í loftárásum Sádi-Araba og bandamanna
Tugir barna féllu í loftárás hernaðarbandalags Sádi-Araba á Jemen. Átökin hafa verið einkar blóðug undanfarnar vikur. Friðarviðræður mögulega á döfinni.