Innlent

Barði mann með stálröri og henti honum upp á pallbíl

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Héraðsdómur Norðurlands eystra á Akureyri.
Héraðsdómur Norðurlands eystra á Akureyri. Vísir/pjetur
Héraðsdómur Norðurlands eystra dæmdi á þriðjudaginn mann á fertugsaldri í 18 mánaða fangelsi fyrir grófa líkamsárás sem átti sér stað á Akureyri í apríl 2016. Annar maður sem ákærður var með hinum dæmda, var sýknaður.

Hinum dæmda var gefið að sök að hafa ráðist á mann í heitum potti, dregið hann upp úr pottinum og barið hann ítrekað með barefli. Þá átti fórnarlamb árásarinnar að hafa úlnliðsbrotnað í árásinni.

Þá var hinn dæmdi einnig ákærður fyrir að hafa, ásamt hinum meðákærða, sett þolandann aftan á pallbíl og keyrt með hann meðvitundarlausan upp í Fálkafell, þar sem þolandinn varð fyrir meiri barsmíðum og ofbeldi og var síðan skilinn eftir meðvitundarlaus þar til vegfarandi gekk fram á hann á tólfta tímanum.

Í ákærunni segir að árásin hafi verið handrukkun í tengslum við fíkniefnaskuld. Báðir hinna ákærðu neituðu sök í málinu.

Báðir mennirnir fundnir sekir um fíkniefnalagabrot

Í dómi málsins kemur fram að maðurinn er fundinn sekur um alla ákæruliði nema einn, en ekki þóttu nægar sannanir fyrir því að maðurinn hefði sparkað í höfuð brotaþola eins og haldið var fram í ákærunni. Þá þótti ekki talið sannað að úlnliður þolanda hafi brotnað í átökunum.

Hinn maðurinn, sem ákærður var með hinum dæmda, var sýknaður. Ekki þóttu nægar sannanir fyrir því að hann hefði verið í slagtogi með hinum dæmda, þar sem ekkert vitnanna í málinu gat staðfest þá fullyrðingu þolandans með óyggjandi hætti.

Þrátt fyrir að hafa verið sýknaður í líkamsárásarmálinu fékk hinn meðákærði eins mánaðar fangelsisdóm þar sem báðir hinna ákærðu voru dæmdir fyrir fíkniefnalagabrot.

Hinum dæmda var gert að greiða brotaþola eina milljón króna í miskabætur, en brotaþoli hafði áður farið fram á tvær milljónir króna.

Dóminn má lesa í heild sinni hér. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×