Erlent

Skrifa flugupplýsingar á tússtöflur vegna bilunar á Gatwick

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Þegar tæknin bilar er gripið til ýmissa ráða.
Þegar tæknin bilar er gripið til ýmissa ráða. Mynd/Edmund von der Burg
Flugvallarstarfsmenn Gatwick-flugvallar á Englandi hafa þurft að nota tússtöflur til þess að koma upplýsingum um komur og brottfarir á flugvellinum til skila vegna bilunar í upplýsingaskjám á flugvellinum fyrr í dag. Farþegar á flugvellinum segja mikla óreiðu einkenna ástandið á flugvellinum.

Bilunina má rekja til þess að ljósleiðarasamband rofnaði við skjánna sem varð til þess að skjáirnir hættu að virka. Starfsmenn flugvallarsins dóu þó ekki ráðalausir, náðu sér í tússtöflur og túss og uppfæra þeir töfluna með stöðu komu og brottfara á flugvellinum jafn óðum og upplýsingar berast.

Bilunin þykir nokkuð bagaleg enda reiða farþegar sig gjarnan mjög á upplýsingaskjái á flugvöllum til þess að fá upplýsingar um komur og brottfarir. Talsmaður flugvallarins hefur gefið út afsökunarbeiðni vegna bilunarinnar en í frétt BBC segir að nokkrir farþegar hafi misst af flugferðum vegna bilunarinnar en flestir farþegar hafi þó komist í rétt flug á réttum tíma.

Farþegar á flugvellinum hafa lýst reiði sinni vegna ástandsins á Twitter og líkti Helen Walsh, sem stödd var á flugvellinum, ástandinu sem „algjöru blóðbaði“. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×