Fulltrúi Skeljungs segir að skoðað verði hið fyrsta hvers vegna teljari í olíudælaskúr við höfnina á Fáskrúðsfirði hafi gefið sig. Talið er að 1000-1500 lítrar af olíu hafi lekið í höfnina í gærkvöldi þegar teljarinn gaf sig. Ingunn Agnes Kro, framkvæmdastjóri skrifstofu- og samskiptasviðs segir ekki hægt að segja til með nákvæmum hætti hve margir lítrar af olíu láku í sjóinn.
Fjallað var um slysið á Vísi í gærkvöldi en um tugur björgunarsveitarfólks frá Geisla á Fáskrúðsfirði komu að hreinsun olíu úr höfninni. Verið var að dæla olíu um borð í uppsjávarskipið Hoffell SU-80 þegar starfsmaður við dælingu fann óvenjumikla lykt og stöðvaði við það dælingu.
„Þegar var tilkynnt til yfirvalda um slysið og allir tiltækir menn kallaðir til. Óskað var eftir aðstoð björgunarsveitarinnar á staðnum, Geisla, sem vann afar gott starf við að hefta útbreiðsu lekans. Bátar björgunarsveitarinnar slæddu olíuna af sjónum og söfnuðu í flekk sem síðan var soginn upp með dælubíl. Fljótt var þannig náð góðum tökum á útbreiðslu olíunnar og stjórn á ástandinu. Á sama tíma var ráðist í þrif í kringum dæluskúrinn. Afar góðar aðstæður voru til hreinsunarstarfs, þar sem veður var mjög gott á svæðinu, hægur andvari sem stóð inn fjörðinn, þurrt og bjart,“ segir Ingunn Agnes í tilkynningu frá Skeljungi.
„Aðstæður verða yfirfarnar á nýjan leik þegar birtir á ný á morgun. Farið verður strax í að skoða hvers vegna teljarinn gaf sig. Ekki er sams konar teljari í notkun annars staðar hjá félaginu.“
Grétar Helgi Geirsson, formaður Björgunarsveitarinnar Geisla, sagði í samtali við Vísi að að óhappið hefði átt sér stað um klukkan sex að kvöldi. Settar voru út flotgirðingar til að hefta útbreiðslu olíunnar en girðingarnar drekka einnig í sig olíu. Þá er notast við niðurbrotsefni til að draga úr mengunarhættu.
Skeljungur segir teljara í olíudæluskúr hafa gefið sig

Tengdar fréttir

Vinna við að hreinsa 1.000 til 1.500 lítra af olíu úr höfninni á Fáskrúðsfirði
Brugðust skjótt við og veðrið hjálpar til.