Innlent

Grunsamlegar mannaferðir í Grafarvogi

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Skuggalegir menn stukku inn í bifreið í Grafarvogi í nótt.
Skuggalegir menn stukku inn í bifreið í Grafarvogi í nótt. Vísir/Vilhelm
Töluvert var um grunsamlegar mannaferðir í austurhluta borgarinnar í nótt. Til að mynda hafði karlmaður verið að sniglast í bakgarði einum þegar húsráðendur komu auga á hann. Maðurinn varð þeirra var og flúði af vettvangi á reiðhjóli. Lögreglan segist þó hafa haft hendur í hári hans og reyndist maðurinn vera í annarlegu ástandi.

Talið er að hann hafi verið undir áhrifum fíkniefna en eitthvað magn af vímuefnum er sagt hafa fundist í fórum hans. Hann var því færður í fangaklefa og verður hann spurður út í hegðun sína síðar í dag, þegar víman hefur runnið af honum.

Þá var einnig tilkynnt um grunsamlegar mannaferðir í Grafarvorgi í gærkvöldi. Ekki fylgir sögunni hvað hinir grunsamlegu höfðu tekið sér fyrir hendur en einstaklingurinn sem benti lögreglu á mennina sagðist hafa séð þá stökkva inn í bifreið. Þegar lögregla stöðvaði bifreiðina þótti augljóst að ökumaður hennar væri undir áhrifum fíkniefna. Hann var þar að auki ökuréttindalaus. Lögreglan greinir ekki frá málalyktum í skeyti sínu en ætla má að ökumaðurinn hafi verið fluttur á lögreglustöð í sýnatöku.

Að sama skapi hafði lögreglan afskipti af meðvitundarlausum manni í bifreið í austurborginni í nótt. Þegar lögreglu- og sjúkraflutningamenn ætluðu að athuga með líðan mannsins er hann sagður hafa brugðist illa við. Á hann að hafa veist að lögreglumönnum og ógnað þeim með sprautunál. Hegðun mannsins er sögð skrifast á mjög annarlegt ástand og var hann því fluttur í fangaklefa, þar sem hann hefur sofið úr sér vímuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×