Innlent

Líkamsárásir í miðbænum

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Mikið var um ölvun og árásir í miðbæ Reykjavíkur í nótt.
Mikið var um ölvun og árásir í miðbæ Reykjavíkur í nótt. vísir/vilhelm
Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst laust fyrir miðnætti tilkynning um líkamsárás á veitingahúsi við Lækjargötu. Þolandinn var með áverka á höfði og var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Meintur árásaraðili var handtekinn og vistaður í fangageymslu lögreglu. Þetta kemur fram í dagbók Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Um hálf fjögur leytið í nótt barst lögreglunni þá önnur tilkynning um líkamsárás í miðbænum, nánar tiltekið við Lindargötu. Sá sem varð fyrir árásinni er mögulega kjálkabrotinn. Árásaraðili var farinn af vettvangi þegar lögreglan mætti á svæðið og er málið í rannsókn.

Skömmu síðar var lögreglu þá tilkynnt um konu sem á að hafa sparkað í andlit manns á veitingahúsi við Laugaveg. Hún sagði að maðurinn hefði bitið sig í andlitið og var með áverka á vör.

Ungur maður í mjög annarlegu ástandi var handtekinn á tólfta tímanum í gær í Grafarvogi. Maðurinn ógnaði fólki með bitvopni. Maðurinn var vistaður í fangageymslu lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×