Erlent

Kepler-geimsjónaukinn vaknaði af værum blundi

Kjartan Kjartansson skrifar
Teikning af Kepler-geimsjónaukanum sem nú er að syngja sitt síðasta.
Teikning af Kepler-geimsjónaukanum sem nú er að syngja sitt síðasta. NASA Ames/JPL-Caltech/T Pyle
Þrátt fyrir að eldsneytisbirgðir Kepler-geimsjónaukans séu nærri því á þrotum vaknaði hann aftur til ífsins eftir að hafa legið í dvala um tveggja mánaða skeið. Verkfræðingar bandaríska geimvísindastofnunarinnar NASA segja að Kepler sé aftur tekinn til við vísindarannsóknir.

Kepler-geimsjónaukanum var skotið út í geim árið 2009 og hefur fundið þúsundir fjarreikistjarna á þeim árum sem síðan eru liðin. Sjónaukinn er nú á síðustu eldsneytisdropunum og gripu stjórnendur hans til þess til ráðs að setja hann í dvala í byrjun júlí til þess að tryggja að hann hefði nægt eldsneyti til að snúa loftneti sínu að jörðinni og senda heim gögn frá síðustu athugunum sínum.

Eftir að Kepler sendi gögnin í hús í síðasta mánuði lagðist sjónaukinn aftur í dvala. Verkfræðingarnir tilkynntu síðan í dag að hann væri aftur vaknaður og væri byrjaður að skima aftur fyrir fjarreikistjörnum.

Space.com segir framtíð geimsjónaukans óljósa. Óregla virðist hafa komið á einn hreyfil geimfarsins sem gæti komið niður á getu stjórnendanna til þess að miða honum rétt. Þá liggur ekki fyrir hversu mikið eldsneyti er eftir í tanknum.

Alls hefur Kepler fundið 2.652 fjarreikistjörnur. Það er um 70% af öllum þekktum fjarreikistjörnum til þessa. Enn mun bætast í safnið, jafnvel þó að Kepler gefi upp öndina á næstu vikum, því vísindamenn eiga enn eftir að fara í gegnum lista um 2.700 annarra mögulegra fjarreikistjarna sem sjónaukinn hefur komið auga á.


Tengdar fréttir

Geimsjónauki NASA á síðustu dropunum

Kepler-geimsjónaukinn hefur fundið aragrúa fjarreikistjarna frá því að honum var skotið á loft árið 2009. Leiðrangrinum lýkur á næstu mánuðunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×