Innlent

Handtekinn með fulla innkaupakerru af verkfærum í Hlíðunum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Maðurinn var því vistaður í fangaklefa þangað til hægt verður að ræða við hann.
Maðurinn var því vistaður í fangaklefa þangað til hægt verður að ræða við hann. Vísir/Vilhelm
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók karlmann á tíunda tímanum í morgun í hverfi 105 vegna gruns um að hann hefði meðferðis þýfi. Maðurinn var með fulla innkaupakerru af verkfærum en reyndist í talsvert annarlegu ástandi sökum fíkniefnaneyslu.

Maðurinn var því vistaður í fangaklefa þangað til hægt verður að ræða við hann, að því er fram kemur í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Þá var tilkynnt um tvö innbrot í bifreiðar í miðborginni, annað á áttunda tímanum og hitt á ellefta tímanum. Einnig var tilkynnt um innbrot í fyrirtæki í hverfi 221 á níunda tímanum og þá var tilkynnt um þjófnað úr verslun í hverfi 220 skömmu fyrir ellefu í morgun.

Á sjötta tímanum var svo óskað eftir aðstoð lögreglu vegna karlmanns sem svaf ölvunarsvefni inni í sólarhringsverslun í hverfi 210. Manninum var vísað út og ekki gerðar frekari kröfur á hendur honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×