Sif Atladóttir var að mati Vísis besti leikmaður Íslands í dag en hún stýrði vörninni eins og herforingi og greip oft vel inn í sóknir þýska liðsins. Einkunnagjöfina má sjá hér fyrir neðan.
Byrjunarlið:
Guðbjörg Gunnarsdóttir, markvörður 6
Greip oft ágætlega inn og varði vel í nokkur skipti. Gerði ekki nógu vel í 1-0 markinu þegar hún varði skot Leupolz út í teiginn.
Glódís Perla Viggósdóttir, miðvörður 7
Stóð fyrir sínu og vel það. Var örugg í sínum aðgerðum og spilaði boltanum ágætlega frá sér.
Sif Atladóttir, miðvörður – maður leiksins 8
Greip oft inn í sóknir Þjóðverja, las leikinn vel og var traust í miðri vörninni. Ógnaði með gríðarlega löngum innköstum sínum.
Ingibjörg Sigurðardóttir, miðvörður 6
Stóð sig ágætlega í vörninni og er framtíðarmiðvörður liðsins ásamt Glódísi Perlu. Náði ekki að vinna nógu vel með Hallberu í vörninni vinstra megin.
Rakel Hönnudóttir, hægri vængbakvörður 5
Skilaði sínu ágætlega en náði lítið að ógna sóknarlega. Missti Verena Schweers framhjá sér þegar sú þýska lagði upp annað mark gestanna.
Hallbera Guðný Gísladóttir, vinstri vængbakvörður 5
Átti í vandræðum varnarlega, sérstaklega í fyrri hálfleik en steig aðeins upp í þeim síðari. Nýttist ekki nógu vel sóknarlega.
Sara Björk Gunnarsdóttir, miðjumaður 6
Griðarlega mikilvæg á miðjunni og sú sem oftast skapar hættu sóknarlega með sendingum. Var oft í erfiðleikum með að finna samherja en dreif liðið vel áfram.
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, miðjumaður 6
Afar dugleg og skilar vinnu sem ekki allir sjá en náði ekki tengingu við sóknarleikmenn Íslands.. Skapaðist stundum pláss fyrir aftan hana og Söru Björk á miðjunni.
Selma Sól Magnúsdóttir, hægri kantmaður 6
Barðist eins og ljón og var dugleg að hjálpa varnarlega. Náði lítið að skapa í sóknarleiknum.
Fanndís Friðriksdóttir, vinstri kantmaður 7
Reyndi hvað hún gat og var gríðarlega dugleg í varnarvinnunni. Átti gott skot í síðari hálfleik sem hún var óheppin að skora ekki úr.
Berglind Björg Þorvaldsdóttir, framherji 5
Vantaði stundum að taka réttu hlaupinn þegar Ísland sótti hratt. Komst aldrei almennilega í takt við leikinn og var lítið í boltanum.
Varamenn:
Svava Rós Guðmundsdóttir, framherji (Kom inn á 63.mínútu fyrir Berglindi Björgu) 5
Komst lítið í takt við leikinn þann tíma sem hún spilaði.
Agla María Albertsdóttir, hægri kantmaður (Kom inn á 75.mínútu fyrir Selmu Sól)
Spilaði of lítið til að fá einkunn.
Guðrún Arnardóttir, hægri vængbakvörður (Kom inn á 84.mínútu fyrir Rakel)
Spilaði of lítið til að fá einkunn.
