Erlent

Farinn á hreindýraveiðar í miðri stjórnarkreppu

Kristján Már Unnarsson skrifar
Kim Kielsen, forsætisráðherra Grænlands og formaður jafnaðarmannaflokksins Siumut.
Kim Kielsen, forsætisráðherra Grænlands og formaður jafnaðarmannaflokksins Siumut. Vísir/AFP
Meðan upplausn ríkir í stjórnmálum Grænlands er formaður landsstjórnarinnar, Kim Kielsen, farinn til fjalla á hreindýraveiðar og ekki væntanlegur til baka fyrr en undir næstu helgi. Borgarstjórnin í Nuuk fagnar samningi við Dani um flugvallauppbyggingu. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2. 

Ríkisstjórn Grænlands sprakk um síðustu helgi þegar forsætisráðherrann og leiðtogi jafnaðarmannaflokksins Siumut, Kim Kielsen, ákvað að skrifa upp á samning við danska forsætisráðherrann um að Danir leggi til tugi milljarða króna til uppbyggingar flugvallakerfis landsins. Einn fjögurra stjórnarflokka yfirgaf stjórnarsamstarfið og efndi til mótmæla og einnig hefur einn þingmanna Siumut lýst yfir andstöðu við samninginn.

Forsætisráðherrar Grænlands og Danmerkur kynntu flugvallasamninginn á blaðamannafundi í Hans Egede-húsinu í Nuuk í byrjun vikunnar.Mynd/TV-2, Danmörku.
Borgarstjórnin í Nuuk, langstærsta sveitarfélaginu, lýsti hins vegar yfir einróma stuðningi við samninginn. Borgarstjórinn, Asii Chemnitz Narup, segir hann skapa vonir og jákvæðar væntingar um hagvöxt með aukinni ferðaþjónustu og fleiri menntuðum störfum.

Borgarstjóri Nuuk, Asii Chemnitz Narup.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.
Kim Kielsen segist bæði ætla að afla meirihlutastuðnings fyrir flugvallasamningnum á grænlenska þinginu jafnframt því að mynda nýjan meirihluta. Stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn hefur á meðan flækt stöðuna með því að kynna nýja og breytta útfærslu á flugvallamálinu, en sú hugmynd hefur hlotið blendin viðbrögð. 

Mitt í þessari stjórnarkreppu slá grænlenskir fjölmiðlar því upp að ekki náist í Kim Kielsen, hann sé horfinn til fjalla, farinn á hreindýraveiðar, og ekki væntanlegur til baka fyrr en undir lok næstu viku. Ritari Siumut-flokksins réttlætir þetta með því að Kim sé þannig maður að honum gangi best að hugsa þegar hann sé aleinn. 

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:

 


Tengdar fréttir

Grænlendingar byggja upp nýtt flugvallakerfi

Grænlensk stjórnvöld áforma stórfelldar flugvallaframkvæmdir sem gjörbreyta flugsamgöngum við landið og gætu styrkt tengsl Íslands og Grænlands enn frekar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×