„Þetta fjárlagafrumvarp segir okkur að ríkisfjármálin standa á mjög traustum grunni. Áfram er haldið uppbyggingu á mikilvægum sviðum samfélagsins. Ég nefni þar sérstaklega heilbrigðis- og velferðarmálin en sömuleiðis samgöngu- og menntamál,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, um fjárlagafrumvarp næsta árs sem kynnt var í gær.
Samkvæmt frumvarpinu verður 29 milljarða króna afgangur af rekstri ríkissjóðs á næsta ári. Er það í samræmi við markmið fjármálastefnu og fjármálaáætlunar. Heildartekjur ríkissjóðs verða tæpir 892 milljarðar samkvæmt frumvarpinu en heildarútgjöld tæpir 863 milljarðar, þar af rúmir 59 milljarðar í vaxtagjöld. Bjarni segir það jákvætt að á sama tíma og verið sé að skila afgangi sé einnig haldið áfram að greiða niður skuldir.
„Við erum að njóta góðs af því að hafa lagt áherslu á varfærni á undanförnum árum. Við höfum greitt upp 660 milljarða af skuldum og um 140 milljarða inn á lífeyrisskuldbindingar sem skilar betra lánshæfismati, lægri vaxtagjöldum og auknu svigrúmi almennt.“
Í lögum um opinber fjármál er sett fram það viðmið að skuldir hins opinbera fari ekki yfir 30 prósent af vergri landsframleiðslu. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu mun það markmið nást í fyrsta skipti á næsta ári.
„Það munar tugum milljarða hvað vaxtagreiðslur eru lægri í dag en þær voru fyrir nokkrum árum. Við höfum í reynd verið að nýta það svigrúm, til að mynda í heilbrigðis- og menntamálin á yfirstandandi ári. En við munum ekki geta haldið áfram að auka útgjöldin til þessara málaflokka á sama hraða á næstu árum meðal annars vegna þess að það er aðeins að draga úr hagvextinum.“
Í frumvarpinu er að finna aðgerðir sem ætlað er að koma til móts við kröfur aðila vinnumarkaðarins í aðdraganda kjarasamninga. Þannig á að hækka persónuafslátt umfram neysluverðsvísitölu, hækka barnabætur til tekjulægri hópa og breyta viðmiðum fjárhæðarmarka tekjuskattsþrepa. Þá verður tryggingagjald lækkað í tveimur þrepum, samtals um hálft prósentustig.
„Allt eru þetta aðgerðir sem við grípum til eftir að hafa sest niður með aðilum vinnumarkaðarins og ég tel að ættu að falla í góðan jarðveg hjá þeim. Í sjálfu sér stendur afgangurinn í þessu fjárlagafrumvarpi alveg á línunni við fjármálaáætlun þannig það er ekkert svigrúm þar. Það er samt engin ástæða til að ætla að stjórnvöld geti ekki brugðist við einu eða neinu ef á þarf að halda. En auðvitað er það fyrst og fremst atvinnurekenda og stéttarfélaga að ná niðurstöðu um kjaramál,“ segir Bjarni.
Skuldir ríkisins fari undir viðmið 2019
Sighvatur Arnmundsson skrifar

Mest lesið

Kjarasamningur kennara í höfn
Innlent

Engin röð á Læknavaktinni
Innlent





Reykjavík ekki ljót borg
Innlent


