Í desember á síðasta ári hófust framkvæmdir við uppbyggingu baðstaðar á Húsavíkurhöfða en jarðhiti svæðisins hefur lengi verið þekktur og jafnvel nýttur til baða og þvotta fyrr á tímum. Nú níu mánuðum síðar hefur 600 fermetra þjónustuhús með búninga- og veitingaaðstöðu verið reist og fimm hundruð fermetra útisvæði með nokkrum baðlaugum.
Stefnt var að því að opna í júní en framkvæmdir drógust um rúma tvo mánuði en opnað var formlega nú í lok ágúst. Upp úr miðri síðustu öld hófst leit að heitu vatni til húshitunnar á svæðinu en tvær borholur sem gáfu af sér heitan sjó sem reyndist of steinefnaríkar fyrir hitaveitukerfi.

Af þeim ástæðum er vatnið talið einstaklega heilsusamlegt til baða og áratugum síðar hófust tilraunir með að nýta hann á þann hátt. Gamalt ostakar sem flutt var á höfðann í þeim tilgangi sem naut mikilla vinsælda.
Í dag er aðstaðan með glæsilegasta móti. Byggingin er hönnuð af Basalt arkitektar með útsýni yfir Skjálfanda, Kinnarfjöll og allt norður að heimskautsbaug.
„Þetta er 30°c heitt vatn sem kemur úr Eimskipsholunni svokölluðu og svo er þetta 102°c heitt vatn sem við tökum úr Ostakarsholunni og skeytum þeim saman og fáum passlegan 37°c til 42°c hérna, en mismunandi eftir pottum,“ segir Sigurjón.
Ferðaþjónustan er gríðarlega mikilvæg atvinnugrein í samfélaginu á Húsavík og ein helsta áskorun ferðaþjónustuaðila hefur verið að halda ferðamönnum á svæðinu en meðal dvalartími hvers og eins hefur að jafnaði verið undir fimm klukkustundum.
„Hingað til hafa þeir ekki stoppa lengi hér á svæðinu en núna vonumst við til að þeir taki eina til tvær nætur og nýti þjónustuna sem er í boði og til staðar meira,“ segir Sigurjón.